Visithorga.is

Á Hrauni í Öxnadal fæddist Jónas Hallgrímsson, 16. nóvember 1807. Jörðin er nú í eigu menningarfélagsins Hrauns í Öxnadal ehf.  FRÆÐIMANNSÍBÚÐ er

Hraun í Öxnadal

Á Hrauni í Öxnadal fæddist Jónas Hallgrímsson, 16. nóvember 1807. Jörðin er nú í eigu menningarfélagsins Hrauns í Öxnadal ehf. 

FRÆÐIMANNSÍBÚÐ
er í íbúðarhúsinu. Þar búa gestir menningarfélagsins allt frá einni viku til þriggja mánaða. Fyrsti gesturinn var Hannes Pétursson skáld.

MINNINGARSTOFUR
um Jónas Hallgrímsson eru í suðurstofunum. Þær voru opnaðar af forseta Íslands á 200 ára afmælisdegi Jónasar hinn 16. nóvember 2007. Þær eru opnar um helgar í júlímánuði milli kl. 14-17.

Í minningarstofunum, sem Minjasafnið á Akureyri hefur umsjón með, er lögð áhersla á að Hraun er fæðingarstaður Jónasar Hallgrímssonar. Ættartré hans er teiknað og birtar ljósmyndir og kynntir landshagir og rakin kjör íslenskrar alþýðu á 19. öld.

Skólaganga Jónasar Hallgrímssonar á Íslandi er rakin í máli og myndum og birtar umsagnir um hann úr manntölum og upplýsingar úr dagbókum hans og samtímamanna hans, og dregnar verða upp myndir úr lífi Jónasar.

Brugðið er upp myndum af honum sem lifandi skáldi, „fyrsta nútímaskáldi Íslendinga”  sem „fann upp fegurðina” ásamt fyrstu íslensku málurunum. Byggt er á því að fleiri sönglög hafa verið gerð við ljóð Jónasar en nokkurs annars íslensks skálds.
Gerð er grein fyrir nýyrðasmíð Jónasar og myndlíkingum („málverkum”) í ljóðum hans og sýndar teikningar hans og myndskreytingar.

Rakin er hugmyndafræði Jónasar og hugsjónir hans og Fjölnismanna en kjörorð þeirra var “nytsemi, fegurð og sannleikur”.  Barátta þeirra verðurtengd frelsisbaráttu þeirri sem háð var í mörgum löndum Evrópu á grundvelli þjóðtungu og þjóðmenningar um leið og afturhvarf varð til „gullaldar Íslendinga”.

Bent er á að Jónas Hallgrímsson var fyrsti menntaði náttúrufræðingur Íslendinga og hafði „meðfæddan” áhuga á náttúrunni auk þess sem hann fékk “innblástur” úr ýmsum áttum. Birt eru kort yfir ferðir Jónasar um landið, m.a. örlagaríka ferð hans yfir Nýjabæjarfjall 1839, yfirlit yfir veðurathugunarstöðvar, sem hann hafði forgöngu um að settar voru upp, og gerð grein fyrir niðurstöðum úr náttúrufarsrannsóknum hans og sýnd rit hans um náttúrufræði, gert steinasafn og grasasafn plöntu- og fornleifakort ásamt örnefnakorti og kortum um söguslóðir.                       

FÓLKVANGUR
Fólkvangur á meginhluta jarðarinnar var stofnaður 10. maí 2007. Umhverfisstofnun, Menningarfélagið Hraun í Öxnadal ehf og Hörgársveit hafa gert með sér samning um umsjón og rekstur fólkvangsins.

FÍFILBREKKUHÁTÍÐ
er árlega um miðjan júní í Hrauni.

Næsta síða

Um vefinnTilgangur vefsins er að kynna þá þjónustu sem er í boði á Hörgársvæðinu.
Flokkun á þjónustunni efst á vefnum auðveldar leitina að réttu þjónustunni.

Svæði

Framsetning efnis

moya - Útgáfa 1.13 2009 - Stefna ehf